Ferill 164. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 166  —  164. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um fjárhagslegar viðmiðanir og lögum um lykilupplýsingaskjöl vegna tiltekinna fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta (fjárhagslegar viðmiðanir og lykilupplýsingaskjöl).

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.



I. KAFLI

Breyting á lögum fjárhagslegar viðmiðanir, nr. 7/2021.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „og aðlögunum samkvæmt bókun 1 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr.  lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, þar sem bókunin er lögfest, og ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr.  190/2019 frá 10. júlí 2019, hafa lagagildi hér á landi“ í 1. mgr. greinarinnar kemur: og 1. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/168 frá 10. febrúar 2021 um breytingu á reglugerð (ESB) 2016/1011 að því er varðar undanþágu fyrir tilteknar viðmiðanir fyrir stundargengi gjaldmiðla þriðju landa og tilnefningu viðmiðana í stað viðmiðana sem verður hætt með, og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 648/2012, og aðlögunum samkvæmt bókun 1 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, þar sem bókunin er lögfest, og ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 190/2019 frá 10. júlí 2019 og nr. 388/2021 frá 10. desember 2021, hafa lagagildi hér á landi.
     b.      Á eftir 2. málsl. 2. mgr. greinarinnar kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Reglugerð (ESB) 2021/168 er birt í C-deild Stjórnartíðinda.
     c.      Við 2. mgr. greinarinnar bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 388/2021 er birt í C-deild Stjórnartíðinda.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 13. gr. laganna:
     a.      Á eftir c-lið kemur nýr stafliður, svohljóðandi: 3. mgr. 18. gr. a um lista yfir viðmiðanir fyrir stundargengi gjaldmiðla sem falla ekki undir reglugerðina.
     b.      Á eftir h-lið kemur nýr stafliður, svohljóðandi: 8. mgr. 23. gr. b um tilnefningu viðmiðana í stað annarra viðmiðana.
     c.      Á eftir m-lið kemur nýr stafliður, svohljóðandi: 7. mgr. 54. gr. um framlengingu umbreytingartímabils vegna viðmiðana þriðju ríkja.

3. gr.

    Á eftir 13. gr. laganna kemur ný grein sem orðast svo ásamt fyrirsögn:

Höfuðstólsfærsla vaxta samkvæmt staðgönguviðmiðun.

    Þrátt fyrir 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, má bæta vöxtum við höfuðstól oftar en á tólf mánaða fresti ef þess er þörf til að endurspegla virka vexti vaxtaviðmiðunar sem kemur í stað vaxtaviðmiðunar sem er lögð af eða verður ónothæf.

4. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ráðherra er heimilt að veita reglugerðum sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkir með stoð í 8. mgr. 23. gr. b reglugerðar (ESB) 2016/1011 með breytingum skv. 1. gr. um tilnefningu viðmiðana í stað annarra viðmiðana gildi hér á landi með reglugerð með vísan til birtingar í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins á ensku, enda hafi íslensk útgáfa þeirra ekki verið birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins.

II. KAFLI

Breyting á lögum um lykilupplýsingaskjöl vegna tiltekinna fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta, nr. 55/2021.

5. gr.

    Í stað ártalsins „2021“ í 2. mgr. 18. gr. laganna kemur: 2022.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Með því er annars vegar lögð til breyting á lögum sem fjalla um vísitölur á fjármálamarkaði til að taka á því hvað eigi að koma í stað vísitalna sem á að hætta að birta eftir lok árs 2021. Hins vegar er lagt til að undanþága rekstrarfélaga verðbréfasjóða og rekstraraðila sérhæfðra sjóða fyrir almenna fjárfesta frá lögum um upplýsingagjöf til fjárfesta verði framlengd til ársloka 2022. Báðar breytingar samræmast nýlegum breytingum á Evrópugerðum sem lögin byggjast á.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Með lögum um fjárhagslegar viðmiðanir, nr. 7/2021, var reglugerð (ESB) 2016/1011 um vísitölur sem notaðar eru sem viðmiðanir í fjármálagerningum og fjárhagslegum samningum eða til að mæla árangur fjárfestingarsjóða, veitt lagagildi hér á landi. Hún hefur að geyma reglur um gerð og notkun viðmiðunarvísitalna á borð við Libor-vexti sem liggja til grundvallar ýmsum samningum á sviði fjármálamarkaðar. Meðal annars er mælt fyrir um starfshætti aðila sem taka saman viðmiðanir, starfsleyfi og aðferðafræði við vinnslu viðmiðana og eftirlit.
    Evrópusambandið samþykkti í febrúar 2021 að breyta reglugerð (ESB) 2016/1011 með reglugerð (ESB) 2021/168. Síðarnefnda reglugerðin var, að einni grein frátalinni, tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samninginn) með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 388/2021 frá 10. desember 2021. Helstu breytingar á reglugerð (ESB) 2016/1011 eru annars vegar að fella viðmiðanir fyrir stundargengi gjaldmiðla á lista sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tekur saman undan reglugerðinni og hins vegar að heimila framkvæmdastjórninni eða lögbærum yfirvöldum í aðildarríkjum að ákvarða viðmiðanir sem skuli notast við ef hætt er að gera viðmiðanir sem samningar eða aðrir fjárhagslegir gerningar vísa í eða þær verða ónothæfar og aðilar að gerningunum hafa ekki komið sér saman um aðrar viðmiðanir til að styðjast við.
    Evrópusambandið samþykkti í desember 2021 að breyta reglugerð (ESB) nr. 1286/2014 um lykilupplýsingaskjöl fyrir pakkaðar og vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir fyrir almenna fjárfesta til að framlengja undanþágu rekstrarfélaga verðbréfasjóða frá gerðinni um eitt ár, til ársloka 2022. Talið er aðkallandi að sú framlenging endurspeglist í innlendri löggjöf.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Lagt er til að vísun til reglugerðar (ESB) 2021/168 verði bætt við 1. gr. laga um fjárhagslegar viðmiðanir til að ljá breytingum á reglugerð (ESB) 2016/1011 gildi hér á landi og að ráðherra verði heimilað að innleiða með reglugerð undirgerðir sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkir á grundvelli nýrra ákvæða í reglugerð (ESB) 2021/168 og verða teknar upp í EES-samninginn. Þá er lagt til að heimilt verði að bæta vöxtum við höfuðstól oftar en á tólf mánaða fresti ef þess er þörf til að endurspegla virka vexti vaxtaviðmiðunar sem kemur í stað vaxtaviðmiðunar sem er lögð af eða verður ónothæf.
    Lagt er til að undanþága fyrir rekstrarfélög verðbréfasjóða og rekstraraðila sérhæfðra sjóða fyrir almenna fjárfesta frá lögum um lykilupplýsingaskjöl vegna tiltekinna fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta, nr. 55/2021, verði framlengd um eitt ár, til ársloka 2022, til samræmis við fyrrgreinda breytingu á reglugerð (ESB) nr. 1286/2014.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið var ekki talið gefa tilefni til að skoða samræmi við stjórnarskrá.
    Íslandi ber skv. a-lið 7. gr. EES-samningsins að taka gerðir sem samsvara reglugerðum Evrópusambandsins og eru teknar upp í EES-samninginn sem slíkar upp í landsrétt. Reglugerð (ESB) 2021/168 var sem fyrr segir tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 388/2021 frá 10. desember 2021 að frátalinni 2. gr. reglugerðarinnar. Ísland er því skuldbundið til að taka reglugerðina upp í landsrétt í heild sinni, að frátalinni 2. gr.
    Ákvæði 2. gr. reglugerðarinnar var ekki tekið upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar 388/2021 því að hún breytir ákvæði sem var bætt við reglugerð (ESB) nr. 648/2012, um OTC-afleiður, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár, með reglugerð (ESB) 2021/23, um ramma um endurreisn og skilameðferð miðlægra mótaðila, en hún hefur enn ekki verið tekin upp í EES-samninginn. Gert er ráð fyrir því að 2. gr. reglugerðar (ESB) 2021/168 verði tekin upp í samninginn samhliða reglugerð (ESB) 2021/23.
    Fyrrgreind breyting á reglugerð (ESB) nr. 1286/2014 hefur ekki enn verið tekin upp í EES-samninginn og Ísland er því ekki orðið þjóðréttarlega skuldbundið til að innleiða hana, en gert er ráð fyrir því að hún verði tekin upp í samninginn á næstunni.

5. Samráð.
    Frumvarpið snertir einkum aðila sem gera og nota fjárhagslegar viðmiðanir, þar á meðal Kauphöll Íslands hf., fjármálafyrirtæki, lántaka og fjárfesta.
    Haft var samráð við Fjármálaeftirlitið við gerð áformaskjals og frummats á áhrifum lagasetningar. Skjölin voru send öðrum ráðuneytum til umsagnar í maí 2021 en engar athugasemdir bárust. Skjölin voru birt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is í sama mánuði (mál nr. S-112/2021) en engar umsagnir bárust.
    Haft var samráð við Fjármálaeftirlitið við gerð draga að frumvarpi þessu og endanlegs mats á áhrifum. Skjölin voru birt í samráðsgátt stjórnvalda í ágúst 2021 (mál nr. S-158/2021). Umsögn barst frá Samtökum fjármálafyrirtækja. Samtökin gerðu ekki athugasemd við efni frumvarpsdraganna, en vöktu athygli á því að nauðsynlegt gæti verið að höfuðstólsfæra vexti innan árs til að endurspegla virka vexti vaxtaviðmiðana. Bentu þau á að líkur væru á að vaxtaviðmiðanir sem kæmu samkvæmt undirgerðum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í stað viðmiðana sem hætt væri að gera mundu byggjast á daglánavöxtum sem væru skuldfærðir daglega. Ákvæði 3. gr. um heimild til höfuðstólsfærslu innan árs vegna staðgönguvaxtaviðmiðana var bætt við frumvarpið til að bregðast við ábendingum samtakanna. Samtökin fóru fram á undanþágu sem næði almennt til samninga sem byggðust á vaxtaviðmiðunum, en ekki aðeins samninga sem byggðust á staðgönguvaxtaviðmiðunum sem kæmu í stað vaxtaviðmiðana sem hætt væri að birta. Slík undanþága næði aftur á móti til mun fleiri samninga en þeirra sem frumvarp þetta varðar með beinum hætti og var talin kalla á ítarlegri skoðun en gafst færi á við gerð frumvarps þessa.
    Haft var samráð við Fjármálaeftirlitið vegna breytingar á lögum um lykilupplýsingaskjöl vegna tiltekinna fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta, nr. 55/2021.

6. Mat á áhrifum.
    Reglugerð (ESB) 2021/168 miðar annars vegar að því að fella viðmiðanir fyrir stundargengi gjaldmiðla á lista sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tekur saman undan reglugerð (ESB) 2016/1011. Breytingunni er ætlað að gera fjármálafyrirtækjum og öðrum aðilum undir eftirliti á Evrópska efnahagssvæðinu kleift að notast áfram við viðmiðanir fyrir stundargengi gjaldmiðla þriðju ríkja þótt umsjónaraðilar þeirra geti ekki hlotið viðurkenningu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins eða lögbærra yfirvalda á Evrópska efnahagssvæðinu því þeir falla ekki undir hliðstætt regluverk og þar gildir. Það auðveldar fjármálafyrirtækjum að gera samninga við út- og innflytjendur og önnur fyrirtæki sem hjálpa fyrirtækjunum að verjast sveiflum í gengi gjaldmiðla þriðju ríkja.
    Reglugerðin miðar hins vegar að því að heimila framkvæmdastjórninni eða lögbærum yfirvöldum í aðildarríkjum að ákvarða viðmiðanir sem skuli notast við ef hætt er að gera viðmiðanir sem samningar eða aðrir fjárhagslegir gerningar vísa í eða þær verða ónothæfar og aðilar að gerningunum hafa ekki komið sér saman um aðrar viðmiðanir. Tillagan tekur meðal annars mið af því að fjármálaeftirlit Bretlands hefur tilkynnt að eftir 2021 verði líklega hætt að birta Libor-vexti, sem eiga að endurspegla millibankavexti í London. Fjöldi lána og annarra fjárhagslegra samninga í Evrópu vísar til Libor-vaxta og talið er líklegt að samningsaðilar muni í mörgum tilvikum ekki hafa komið sér saman um aðra viðmiðun áður en hætt verður að birta Libor-vexti. Það að fyrir liggi viðmiðanir sem megi notast við þeirra í stað ætti að draga úr röskun af völdum þessa.
    Fjármálaeftirlitið telur lögfestingu reglugerðar (ESB) 2021/168 ekki kalla á aukin verkefni eða kostnað. Ekki er gert ráð fyrir því að lögfestingin hafi áhrif á fjárhag ríkisins.
    Framlenging undanþágu frá gildissviði laga um lykilupplýsingaskjöl vegna tiltekinna fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta, nr. 55/2021, er ívilnandi. Breytingin einfaldar almennum fjárfestum að taka upplýstar fjárfestingarákvarðanir þar sem rekstrarfélög verðbréfasjóða og rekstraraðilar sérhæfðra sjóða fyrir almenna fjárfesta munu aðeins afhenda eina tegund lykilupplýsingaskjala í stað tveggja tegunda.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Með 1. gr. laga um fjárhagslegar viðmiðanir var reglugerð (ESB) 2016/1011, eins og hún var aðlöguð við upptöku í EES-samninginn, veitt lagagildi hér á landi. Með 1. gr. frumvarpsins er lagt til að breytingum á reglugerðinni með 1. gr. reglugerðar (ESB) 2021/168 verði veitt gildi hér á landi. Breytingunum er annars vegar ætlað að undanþiggja viðmiðanir fyrir stundargengi gjaldmiðla á lista sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tekur saman gildissviði reglugerðarinnar og hins vegar að heimila framkvæmdastjórninni eða lögbærum yfirvöldum í aðildarríkjum að ákvarða viðmiðanir sem skuli notast við ef hætt er að gera viðmiðanir sem samningar eða aðrir fjárhagslegir gerningar vísa í eða þær verða ónothæfar og aðilar að gerningunum hafa ekki komið sér saman um aðrar viðmiðanir til að styðjast við.

Um 2. gr.

    Í 1. mgr. 13. gr. laga um fjárhagslegar viðmiðanir er ráðherra heimilað að innleiða með reglugerð undirgerðir sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkir til að útfæra nánar viss atriði reglugerðar (ESB) 2016/1011 og ekki byggjast á tæknistöðlum frá Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnuninni. Með reglugerð (ESB) 2021/168 er þremur ákvæðum sem heimila framkvæmdastjórninni að samþykkja undirgerðir til að útfæra tiltekin atriði bætt við reglugerð (ESB) 2016/1011. Með 2. gr. frumvarpsins er lagt til að ráðherra verði heimilað að innleiða með reglugerð undirgerðir sem framkvæmdastjórnin samþykkir á þessum grundvelli og verða teknar upp í EES-samninginn.
    Nýju heimildirnar lúta að lista yfir viðmiðanir fyrir stundargengi gjaldmiðla sem uppfylla skilyrði fyrir því að vera undanþegnar gildissviði reglugerðar (ESB) 2016/1011, sbr. 3. mgr. 18. gr. a reglugerðarinnar, tilnefningu viðmiðana sem skuli notast við ef hætt er að gera viðmiðanir sem samningar eða aðrir fjárhagslegir gerningar vísa í eða þær verða ónothæfar og aðilar að gerningunum hafa ekki komið sér saman um aðrar viðmiðanir til að styðjast við, sbr. 8. mgr. 23. gr. b reglugerðarinnar, og mögulegri framlengingu heimildar í 5. mgr. 51. gr. reglugerðarinnar til að notast við viðmiðanir þriðju ríkja til ársloka 2025, sbr. 7. mgr. 54. gr. reglugerðarinnar.
    Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur á þessum grundvelli gefið út reglugerðir (ESB) 2021/1847 og 2021/1848. Þær tilgreina við hvaða viðmiðanir skuli miðað í stað Libor-vaxta í svissneskum frönkum (e. CHF LIBOR) og millibankadagvaxta í evrum (e. Euro overnight index average – EONIA) þegar hætt verður að birta þær viðmiðanir í upphafi árs 2022 komi aðilar að gerningum sem vísa til þeirra sér ekki saman um aðrar viðmiðanir til að styðjast við. Gert er ráð fyrir því að í stað Libor-vaxta í svissneskum frönkum verði stuðst við svissneska meðaldagvexti (e. Swiss Average Rate Overnight – SARON) og að í stað millibankadagvaxta í evrum verði stuðst við skammtímavexti í evrum (e. Euro short-term rate – €STR).

Um 3. gr.

    Við útreikning virkra vaxta, það er vaxta að teknu tilliti til vaxtavaxta, af láni eða annarri peningakröfu skiptir máli hve oft má bæta vöxtum við höfuðstól því að frá þeim tímapunkti sem það er gert reiknast vaxtavextir af vöxtunum. Virkir vextir eru hærri því oftar sem höfuðstólsfæra má vexti. Sem dæmi má nefna tíu millj. kr. lán til eins árs með 5% vöxtum. Ef aðeins mætti höfuðstólsfæra vextina í lok lánstímans væru vextirnir 500.000 kr. Ef höfuðstólsfæra mætti vextina daglega yrðu vextirnir aftur á móti 512.700 kr.
    Margir samningar á fjármálamarkaði hafa stuðst við Libor-vexti, sem eru reiknaðir fyrir samninga allt frá einum degi til tólf mánaða. Gert er ráð fyrir því að í stað Libor-vaxta verði frá ársbyrjun 2022 stuðst við tilgreinda dagvexti. Til þess að endurspegla þá vexti í samningi sem er til lengri tíma en eins dags þarf að vera unnt að höfuðstólsfæra vexti daglega, eða unnt að semja um að vextir skuli jafngilda því að það hefði verið gert. Skv. 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, má aftur á móti ekki bæta vöxtum við höfuðstól oftar en á tólf mánaða fresti, nema þegar um er að ræða innlánsreikninga lánastofnana. Með tilliti til framangreinds er lögð til undanþága frá þeirri meginreglu vaxtalaga þegar tíðari höfuðstólsfærsla er nauðsynleg til að endurspegla virka vexti vaxtaviðmiðunar sem kemur í stað vaxtaviðmiðunar sem er lögð af eða verður ónothæf. Heimildin á við hvort sem staðgönguviðmiðun er ákvörðuð í undirgerð framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem er veitt gildi hér á landi með reglugerð ráðherra, sbr. b-lið 2. gr. frumvarpsins, ákvörðun Fjármálaeftirlitsins eða samningi aðila.
    Vaxtaviðmiðun er viðmiðun sem er ákvörðuð á grundvelli þeirra vaxta sem bankar geta veitt eða fengið lán á frá öðrum bönkum eða öðrum aðilum en bönkum á peningamarkaði, sbr. 22. tölul. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar (ESB) 2016/1011.

Um 4. gr.

    Sem fyrr segir í greinargerð verður líklega hætt að birta Libor-vexti eftir 2021. Libor-vextir eru nú birtir í nokkrum gjaldmiðlum en framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur fram til þessa aðeins birt reglugerð um hvað eigi að koma í stað Libor-vaxta í svissneskum frönkum. Líkur er á að framkvæmdastjórnin muni fyrir áramót gefa út reglugerðir um hvað eigi að koma í stað Libor-vaxta í öðrum gjaldmiðlum. Næsta útilokað er þó að unnt verði að taka slíkar reglugerðir, sem ekki eru enn komnar fram, upp í EES-samninginn og þýða þær á íslensku fyrir áramót. Til þess að unnt verði að veita þeim gildi hér á landi í tæka tíð til að forðast röskun af völdum þess að hætt verður að birta Libor-vexti er því lagt til að ráðherra verði heimilað að veita slíkum gerðum gildi hér á landi með reglugerð með vísan til birtingar þeirra í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins á ensku. Heimildin á aðeins við ef íslensk útgáfa hefur ekki verið birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins.

Um 5. gr.

    Rekstrarfélög verðbréfasjóða og rekstraraðilar sérhæfðra sjóða fyrir almenna fjárfesta eru nú undanþegnir gildissviði laga um lykilupplýsingaskjöl vegna tiltekinna fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta, nr. 55/2021, skv. 2. mgr. 18. gr. laganna til 1. janúar 2022. Tilgangur undanþágunnar er að tryggja að aðilarnir þurfi ekki bæði að skila lykilupplýsingaskjölum samkvæmt lögum um verðbréfasjóði, nr. 116/2021, og lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, nr. 45/2020, annars vegar og lögum um lykilupplýsingaskjöl vegna tiltekinna fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta hins vegar.
    Lagt er til að undanþágan verði framlengd um eitt ár. Breytingin samræmist breytingum sem hafa verið gerðar á reglugerð (ESB) 1286/2014, sem lög um lykilupplýsingaskjöl vegna tiltekinna fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta veittu lagagildi hér á landi. Gert er ráð fyrir því að frá og með 1. janúar 2023 verði sjóðunum skylt að útbúa lykilupplýsingaskjöl samkvæmt lögum um lykilupplýsingaskjöl vegna tiltekinna fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta en ekki samkvæmt lögum um verðbréfasjóði og lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, þegar afurðir eru boðnar almennum fjárfestum.

Um 6. gr.

    Talið er áríðandi að reglugerðir (ESB) 2021/1847 og 2021/1848, og eftir atvikum aðrar reglugerðir sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkir um viðmiðanir sem eigi að koma í stað Libor-vaxta, taki gildi hér á landi 1. janúar 2022. Það krefst þess að reglugerð ráðherra, sem veitir þeim gildi hér á landi, verði birt í Stjórnartíðindum á Íslandi í síðasta lagi 31. desember 2021. Lagt er til að lögin taki þegar gildi svo að ráðherra fái í tæka tíð fyrir lok árs 2021 heimild til að setja slíka reglugerð.
    Jafnframt er talið æskilegt að breyting á lögum um lykilupplýsingaskjöl vegna tiltekinna fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta taki gildi fyrir lok árs 2021 svo að ekki muni hvíla tvöföld upplýsingagjafarskylda á rekstrarfélögum verðbréfasjóða og rekstraraðilum sérhæfðra sjóða frá upphafi árs 2022.